Veitingastaðir
,,Veitingarekstur Bláa Lónsins byggir á metnaði í matreiðslu, gæðum í hráefnavali og faglegri þjónustu í einstöku umhverfi.”
Bláa Lónið hefur lagt áherslu á að laða til sín í fagfólk í fremstu röð á sviði matreiðslu- og framreiðslu. Fyrirtækið hefur átt í afar góðu samstarfi við hótel- og veitingaskólann við Menntaskólann í Kópavogi. Þó svo að reksturinn hafi verið í algjöru lágmarki á fyrri hluta ársins lagði Bláa Lónið áherslu á að styðja áfram við þá nema sem þegar voru á samningi hjá félaginu. Með því var tryggt að nemarnir gætu haldið sínu striki og lokið námi á tilsettum tíma.
Bláa Lónið rekur þrjá veitingastaði á upplifunarsvæðum sínum og eitt kaffihús auk þess sem framreiddur er morgunverður á Silica Hotel og Retreat Hotel. Þá rekur veitingadeildin einnig mötuneyti starfsmanna sem nefnist Bláberið.
Umsvif veitingarekstrarins jukust í takt við umsvif Bláa Lónsins og hótelanna frá miðju ári. Áhersla var lögð á sveigjanleika og samlegð í rekstri eininga án þess þó að það kæmi niður á gæðum og metnaði.
Moss Restaurant
„One of the best meals and best presentation of food, in my life.“
Júlí 2021 • Umsögn af Tripadvisor
„Very well done – excellent food and service“
Október 2021 • Umsögn af Tripadvisor
Rekstur veitingastaðarins Moss hófst á ný eftir 8 mánaða lokun um leið og Retreat Hotel opnaði í byrjun júlí 2021. Staðurinn hefur sannað sig sem einn besti veitingastaður landsins. Hann hefur fengið Michelin viðurkenningu, nú tvö ár í röð. Áhersla er lögð á árstíðabundið, ferskt hráefni og einstaka matarupplifun. Mikilvægur þáttur í ferðalagi gestsins er einstakur vínkjallari sem hefur að geyma á bilinu 5.000–6.000 vínflöskur af um 500 mismunandi tegundum.
Moss Restaurant er opinn 5 daga vikunnar og hafa hótelgestir forgang að borðabókunum, en nær undantekningarlaust er biðlisti eftir borði á Moss Restaurant.
Lava Restaurant
„Elegant Vibes“
Ágúst 2021 • Umsögn af Tripadvisor
„Gourmet food in a lovely setting“
Júní 2021 • Umsögn af Tripadvisor
Þegar Bláa Lónið opnaði á ný var ákveðið að tengja rekstur Lava Restaurant tímabundið við starfsemi Blue Café. Var þetta gert til þess að tryggja samlegð og sveigjanleika í rekstri staðarins fyrstu vikurnar.
Á sama tíma var ráðist í gagngerar endurbætur á veitingasal Lava Restaurant og var nýr og endurbættur salur opnaður fyrir gestum þann 10. júlí. Meðal nýjunga er glæsilegur bar og bætt lýsing sem setur sterkan svip á salinn. Með breytingunni voru borðdúkar teknir úr notkun en sú ráðstöfun var m.a. gerð til þess að draga úr umhverfisspori rekstursins.
Lava Restaurant hefur hlotið afar góðar viðtökur meðal gesta, en lögð er áhersla á einfalda rétti úr fersku íslensku hágæðahráefni úr hafi og haga.
Spa Restaurant
Veitingastaðurinn Spa Restaurant var opnaður samhliða opnun Retreat Spa. Hann býður gestum heilsulindarinnar upp á ferska og heilsusamlega rétti auk þess sem þeir geta notið léttra veiga í sérstöku veitingalóni. Þá sér Spa Restaurant einnig um morgunmat fyrir hótelgesti á Retreat Hotel og veitingar í móttökusal hótelsins.
Blue Café
Á kaffihúsinu Blue Café er gestum Bláa Lónsins boðið upp á létta rétti, opnar samlokur, drykki og kaffiveitingar. Áhersla er lögð á gæði og gott hráefni og eru allir réttir útbúnir í köldu eldhúsi á staðnum. Þá rekur Blue Café einnig hinn vinsæla bar Bláa Lónsins þar sem gestir geta fengið sér hressingu úti í lóni.