Ávarp forstjóra

„Það sem stendur uppúr er sá kraftur og samheldni sem hefur einkennt starfsmannahópinn. Hann hefur stigið ölduna, allir sem einn, á erfiðum tímum.“

Grímur Sæmundsen

Forstjóri

Segja má að hægt sé að skipta rekstrarárinu 2021 í tvö tímabil. Annars vegar fyrri hlutann, þegar félaginu var gert að hafa rekstur sinn í Svartsengi lokaðan frá 8. október 2020 til 15. júní 2021, vegna sóttvarnaraðgerða yfirvalda og svo seinni hlutann, eftir opnun.

Það sem stendur upp úr er sá kraftur og samheldni sem hefur einkennt starfsmannahópinn. Hann hefur stigið ölduna, allir sem einn, á erfiðum tímum.  Að meðaltali störfuðu hjá félaginu 396 starfsmenn frá um 30 þjóðernum en félaginu hefur auðnast að endurráða 280 manns eftir erfiðar uppsagnir árið á undan.

„Bláa Lónið skapaði mikil sameiginleg verðmæti fyrir samfélagið á árinu 2021, rétt eins og fyrri ár, en hagræn áhrif þess eru mikil hvort sem litið er til þjóðarbúsins almennt eða nærsamfélagsins sérstaklega.”

Í upphafi COVID-19 faraldursins varð fljótt ljóst að hann myndi ekki einungis hafa áhrif á heilsu almennings heldur jafnframt hafa gríðarleg efnahagsleg áhrif í för með sér. Íslensk stjórnvöld kynntu því til sögunnar ýmis úrræði fyrir fyrirtæki til að draga úr þessum áhrifum á hagkerfið. Eins og fjölmörg önnur fyrirtæki nýtti Bláa Lónið sér hluta þessara úrræða. Þetta var félaginu sérstaklega mikilvægt til að verja störf og til að geta aukið umsvifin hratt þegar að viðspyrnunni kæmi.

Stuðningurinn hefur þegar skilað sér ríkulega til baka til ríkissjóðs. Heildarskattspor félagsins á árinu 2021, að teknu tilliti til framangreindra úrræða, var yfir  1,8 milljarðar króna sem er níföld sú fjárhæð sem félagið nýtti sér í gegnum úrræði ríkisstjórnarinnar. Skattsporið felur í sér alla greidda skatta og gjöld til ríkis og sveitarfélaga.

„Á síðasta ári nam efnahagslegt framlag félagsins 104% af veltu þess eða sem nemur um 7,5 milljörðum íslenska króna.“

Bláa Lónið skapaði mikil sameiginleg verðmæti fyrir samfélagið á árinu 2021, rétt eins og fyrri ár, en hagræn áhrif þess eru mikil hvort sem litið er til þjóðarbúsins almennt eða nærsamfélagsins sérstaklega.  Á síðasta ári nam efnahagslegt framlag félagsins 104% af veltu þess eða sem nemur um 7,5 milljörðum íslenska króna.

Á fyrri hluta ársins 2021 var sérstaklega fjárfest í umbótaverkefnum og ferlar endurskoðaðir.  Stjórnkerfi fyrirtækisins var ISO vottað á árinu m.t.t. gæðamála, umhverfismála, öryggis- og heilsumála. Áhersla á þessar vottanir og samstaða starfsfólks Bláa Lónsins í að styrkja stöðu fyrirtækisins enn frekar lýsir vel fyrirtækjamenningu Bláa Lónsins sem miðar að stöðugum umbótum. Áfram var haldið á þeirri vegferð að fjárfesta í öðrum umbótaverkefnum s.s. innviðum í upplýsingatækni, stafrænni þróun og auknu þjónustuframboði.  Þá var farið í töluverðar viðhaldsframkvæmdir á mannvirkjum og gagngerar endurbætur á veitingastaðnum Lava. Ný verslun Bláa Lónsins í Kringlunni var opnuð í apríl 2021 og verslunin á Laugavegi 15 var opnuð aftur í nóvember eftir lokun frá því í upphafi árs 2021.

Ný húðvörulína Bláa Lónsins, BL+, leit dagsins ljós á vormánuðum.  Vörulínan byggir á nýja innihaldsefninu BL+ COMPLEX, sem nýtir einkaleyfi Bláa Lónsins hf. á þörungum og kísli.  Efnið byltingarkennda er afrakstur nýsköpunar, sjálfbærrar þróunar og yfir 30 ára rannsóknavinnu fyrirtækisins á jarðsjó Bláa Lónsins. Aðaláherslan hefur verið á að koma vörulínunni á markað í Bandaríkjunum. Vörurnar hafa þegar verið COSMOS NATURAL vottaðar sem styrkir stöðu þeirra á markaði m.t.t. sjálfbærni og rekjanleika.

Eftir að rekstur Bláa Lónsins var opnaður aftur um mitt ár 2021 hefur stígandi verið í fjölda gesta á sama tíma og fjöldi erlendra ferðamanna til landsins hefur aukist á ný. Gestir okkar njóta í auknum mæli alls þess sem Bláa Lónið hefur uppá að bjóða og dvelja að jafnaði lengur en áður. Umbótaverkefni sem tengjast aukinni skilvirkni og vöruframboði hafa skilað sér vel. NPS skor, mæling sem er vísbending um ánægju gesta og hversu líklegir þeir eru til að mæla með Bláa Lóninu, mælist áfram afar hátt í öllum alþjólegum samanburði og helst í hendur við mælingar fyrri ára. Einstakur mannauður hefur skilað frábærum árangri og einstakri upplifun gesta okkar.

„Félagið horfir til nýrra tíma þar sem skýr áhersla á einstakar heilsu- og vellíðunarupplifanir með áherslu á umhverfis- og sjálbærnimál er leiðarstefið.“

Félagið horfir til nýrra tíma þar sem skýr áhersla á einstakar heilsu- og vellíðunarupplifanir með áherslu á umhverfis- og sjálbærnimál er leiðarstefið. Það er trú okkar að slík vegferð skili aukinni skilvirkni, bæti skipulag og markmiðasetningu og þannig árangur fyrirtækisins, hvort sem horft er til fjárhagslegra, samfélagslegra eða umhverfisþátta. Við horfum björtum augum til framtíðar.

Start typing and press Enter to search