Samskipti við hagaðila

„Bláa Lónið leggur áherslu á samskipti og aðgerðir sem stuðla að sjálfbærri þróun í samvinnu við helstu hagaðila.”

Hagaðilar Bláa Lónsins

Árið 2021 var gert endurmat á helstu hagaðilum Bláa Lónsins með hliðsjón af aðferðafræði GRI staðalsins og leiðbeininga ISO 26000. Bláa Lónið leggur áherslu á að viðhalda góðu sambandi við helstu hagaðila sína. Með því að ramma málaflokkinn betur inn skuldbindur Bláa Lónið sig enn frekar til að auka almenna vitund um sjálfbærni og stuðla að frekari samskiptum og aðgerðum í átt að sjálfbærri þróun í samvinnu við helstu hagaðila sína.

Samstarf og samstaða

Bláa Lónið hf. er í samstarfi við Reykjanes Unesco Global Geopark (RGP), Jarðvang og sveitarfélögin á Suðurnesjum. Samstarfið snýr að því að styrkja Reykjanesið sem áfangastað, stuðla að sjálfbærri nýtingu í sátt við náttúru og bæta þekkingu, viðhorf og verndarstöðu jarðminja.

Að frumkvæði Bláa Lónsins hefur aðstaðan við Reykjanesvita verið bætt m.a. með vatnslögn og salernisaðstöðu í góðu samstarfi við Hollvinasamtök Reykjanesvita og Reykjanesbæ meðal annarra.  Starfsmaður á vegum Bláa Lónsins sinnir umhverfis- og þjónustuþáttum á svæðinu.

Stefnt er á að taka vitavarðarhúsið í gegn á árinu 2022. Það er gert undir merkjum félags í meirihlutaeigu Bláa Lónsins; Þjónustumiðstöðin Reykjanes ehf.

Bláa Lónið er virkur þátttakandi í hinum ýmsu samvinnu- og umbótaverkefnum sem stuðla að uppbyggingu Íslands sem vellíðunaráfangastaðar. Má þar nefna áherslur á sviði sölu- og kynningarmála, sjálfbærni- og umhverfismála og nýsköpunar. Með þátttöku sinni í þessum verkefnum leggur félagið sitt á vogarskálarnar hvað varðar aukna verðmætasköpun og samkeppnishæfni Íslands.

Bláa Lónið er þátttakandi í eftirfarandi samtökum: Festa, Vakinn, SAF, SA, Ferðaklasinn, Iceland Luxury, Meet in Reykjavík, Business Iceland, Spa association  – Heilsulindasamtök Íslands.

Íslenski ferðaklasinn
sa-isl-01
festa_logo_midstod-um-samfelagsabyrgd

Start typing and press Enter to search