Öryggi & heilsa
„Öryggismenning Bláa Lónsins er afar sterk.„
Í allri starfsemi Bláa Lónsins er lögð áhersla á að skapa umhverfi þar sem menn geta notið sín á öruggan hátt, bæði gestir og starfsfólk. Fyrirtækið er fyrirmynd í þeim efnum.
Heilsa og öryggismál
Líkamlegt heilbrigði og andlegt jafnvægi eru grunnurinn að vellíðan í leik og starfi. Starfsfólki bauðst, eins og fyrri ár, að stunda líkamsrækt og efla andlega heilsu þeim að kostnaðarlausu. Auk þess var boðið upp á tíma hjá trúnaðarlækni eftir þörfum ásamt þjónustu sálfræðings, heilsufarsmælingar og inflúensubólusetningar.
Góðar og heilsusamlegar vinnuaðstæður eru undirstaðan að ánægju starfsfólks sem eykur svo aftur ánægju gesta. Öll vinnusvæði eru hönnuð með það í huga að tryggja öryggi og heilsu starfsfólks og stöðugt er leitað leiða til að auka þægindi. Matsalur starfsfólks er sérstaklega hannaður til að skapa þægilegt og afslappandi andrúmsloft með fjölbreyttu úrvali af næringarríku fæði.
Innan Bláa Lónsins er rekin öflug öryggisvaktstöð sem sinnir eftirliti með öllu athafnasvæði fyrirtækisins með það að markmiði að tryggja öryggi gesta, starfsfólks, verktaka, eigna og bygginga allan sólarhringinn alla daga ársins. Með miðlægri vöktun og viðbragði styttist viðbragðstími og skilvirkni eykst í innri og ytri samskiptum í neyðarviðbrögðum.
Öflugur hópur baðlónsgæslumanna er hluti af öryggisteymi Bláa Lónsins. Þeir sinna mikilvægu hlutverki við vöktun gesta í baðlónum á opnunartíma þeirra.
Öryggi og velferð gesta og starfsfólks Bláa Lónsins eru ávallt í forgrunni í allri starfsemi fyrirtækisins. Allt upplifunarferli gesta og störf starfsfólks eru áhættumetin með tilliti til öryggis, heilsu og umhverfis og viðeigandi stýringar innleiddar til að lágmarka slysahættu. Stýringarnar skila sér í hönnun og skipulagi upplifunarsvæða, þjálfun starfsfólks, öryggisreglum og upplýsingagjöf til gesta.
Helstu orsakir slysa 2021 má rekja til fallhættu vegna hálla yfirborða t.a.m. vegna bleytu eða íss. Fyrirtækið hefur orsakagreint þessi atvik, innleitt stýringar og farið í umbótaverkefni til að draga úr þessari áhættu og koma í veg fyrir að atvikin endurtaki sig.
Fyrirtækið hefur skilgreint, skráð og æft neyðarviðbrögð við helstu áhættum í rekstri. Stigveldi áhættustýringa er notað til að stýra og lágmarka áhættustig í rekstri eftir fremsta megni.
Til staðar eru kerfi til að skrá og bregðast við atvikum og fylgja þeim eftir. Þá eru miðlæg vöktun og viðbragð, viðhaldskerfi og tæknikerfi til staðar til að bregðast við bilunum og öðrum uppákomum allan sólarhringinn.
5 Starfsmenn voru frá vinnu vegna vinnuslysa 2021
96 vinnudagar
3 voru frá 4 daga eða lengur
Markmið
Markmið 2021 | Árangur 2021 | Markmið 2022 | Langtímamarkmið |
---|---|---|---|
Fjöldi stærri slysa* | 0 | 0 | 0 |
*Dauðsföll eða aðrar óafturkræfar afleiðingar slysa
Fordæmalausir tímar
Árið 2021 einkenndist áfram af áhrifum heimsfaraldurs vegna COVID-19 og takmörkuðum opnunartíma. Miklar jarðhræringar í nágrenni Bláa Lónsins settu svip sinn á fyrri hluta árs, og til að mynda þurfti að virkja rýmingaráætlun vegna snarprar skjálftahrinu þann 24. febrúar. Þessar jarðhræringar enduðu með eldgosi sem hófst í Geldingadölum þann 19. mars. Eldgosinu lauk þann 16. desember síðastliðinn. Öryggis- og heilsuteymi Bláa Lónsins var í nánu samráði og samvinnu við yfirvöld og viðbragðsaðila vegna jarðhræringanna. Sérstök áhersla var lögð á öfluga upplýsingagjöf til starfsmanna bæði tengt jarðhræringum og COVID-19 faraldri sem má telja að hafi skilað sér í aukinni vellíðan og öryggi starfsfólks á þessum óvissutímum.
Fyrri hluti ársins var m.a. nýttur í að byggja upp og innleiða stjórnkerfi fyrir heilsu og öryggi á vinnustað samkvæmt alþjóðlega staðlinum ISO 45001 og hlaut fyrirtækið m.a. vottun á þeim staðli sumarið 2021. Starfsfólk allra eininga fyrirtækisins kom að þeirri vinnu og má með sanni segja að sú vinna hafi eflt öryggismenningu fyrirtækisins til muna.