Í átt að hringrásarhagkerfi
„Samfélag án sóunar eru einkunnarorð Bláa Lónsins í umhverfismálum.”
Samfélag án sóunar eru einkunnarorð Bláa Lónsins í umhverfismálum og markmið Auðlindagarðsins í nýtingu auðlindastrauma. Við hönnun og þróun á nýjum upplifunum eða vörum er ávallt horft til auðlindarinnar og hrakstraumanna frá henni til að meta hvernig hægt er að nýta þá betur. Með rekstri Bláa Lónsins fylgja ýmis önnur úrgangsefni/hrakstraumar sem fyrirtækið vinnur jafnharðan í að flokka og aðgreina til endurnýtingar eða endurvinnslu og skapa þannig aukið virði fyrir fyrirtækið og nærsamfélagið.
Hringrásarumbúðir
Allar nýjar vörulínur Bláa Lónsins eru hannaðar og framleiddar í umhverfisvænum hringrásarumbúðum, einkum pappa, áli og gleri í stað plastefna. Vörur í plastumbúðum eru einungis seldar til að vinna upp lager en verða síðan framleiddar í hringrásarumbúðum. Allur pappír sem notaður er í umbúðir kemur frá ábyrgri skógrækt og er FSC (Forest Stewardship Council) vottaður. Stöðugt er unnið að minni sóun í rekstri með því að draga úr magni umbúða og velja fjölnota fram yfir einnota. Til að fylgja þeirri hugsjón eftir mun fyrirtækið leggja meiri áherslu á fjölnota umbúðir húðvara í sínum rekstrareiningum á komandi ári og setja af stað áfyllingastöðvar í verslunum sínum í Reykjavík.
COSMOS (COSMetic Organic and natural Standard) er snyrtivörustaðall með ríka áherslu á umhverfisvernd í framleiðsluháttum snyrtivara, allt frá ábyrgri nýtingu auðlinda, til notkunar umhverfisvænna umbúða og hreinsiefna, ásamt því að tryggja bestu gæði innihaldsefna í snyrtivörum með velferð neytenda og náttúrunnar í huga.
Úrgangsmál
Árið 2021 var endurvinnsluhlutfallið 35%. Fyrirtækið stefnir þó að aukinni flokkun og að ná endurvinnsluhlutfallinu yfir 50%. Magn úrgangs lækkaði í samræmi við fækkun gesta í COVID-19 og var 60% minna en árið 2019. Vegna óhefðbundins reksturs á árinu náðist ekki hærra endurvinnsluhlutfall.
Pappír – 50 færri tré
Allur pappír sem fyrirtækið kaupir inn er PEFC eða FSC vottaður, þ.e. framleiðandinn stundar ábyrga nýtingu og ræktun skóga.
Árið 2021 voru prentuð 44% færri A4 blöð samanborið við árið á undan og 7 sinnum færri blöð en árið 2016 sem jafngildir því að höggva þurfti 50 færri tré árið 2021 til að framleiða prentpappír í samanburði við 2016. Þennan árangur má rekja til margra umbóta innan fyrirtækisins eins og rafrænna undirskrifta og aukinnar notkunar skýjalausna.
Fyrirtækið býður nú viðskiptavinum sínum einungis pappapoka og fjölnotapoka til sölu, til að draga úr óþarfa sóun. Fjöldi seldra pappapoka jókst í samræmi við fjölgun gesta en fjöldi seldra fjölnotapoka tífaldaðist á milli ára.
Árið 2020 voru 2 af hverjum 100 seldum pokum fjölnota en árið 2021 urðu þeir 13 af hverjum 100. Einnig fækkaði prentrúllum um þriðjung þrátt fyrir aukinn fjölda gesta og hafa þær dregist saman um meira en tífalt samanborið við árið 2018.
Plast – Plastlaus upplifun
Bláa Lónið hefur síðastliðin tvö ár kortlagt plastspor sitt m.t.t. einnota plasts í upplifunarferlum og vörum viðskiptavina sinna. Á þessum tíma hefur fyrirtækið unnið markvisst að því að draga úr plastspori sínu og stefnir að því að útrýma öllu einnota plasti úr upplifun sinna gesta. Plastspor fyrirtækisins hefur verið minnkað um 78% frá árinu 2019. Rekja má árangurinn til breytinga í framboði á flip-flops skóm, fjölnota glasa í baðlóni, fjölnota burðarpoka, umhverfisvænni umbúða matvæla og húðvara félagsins og fleiri umbótaverkefna.
Sigurður Long
Upplýsingatækni & Stafræn þróun
„Við erum að leggja sérstaka áherslu á stafrænar lausnir sem auka hagkvæmni og sveigjanleika bæði starfsmanna og viðskiptavina okkar. Markmiðin með þessum verkefnum eru að auka skilvirkni starfsmanna og ánægju viðskiptavina t.a.m. með auknum sveigjanleika við bókun. Við munum nýta stafrænar lausnir til að minnka útprentun umtalsvert og á sama tíma fækkum við prentsvæðum. Í mannauðsteymi Bláa Lónsins hefur sérstaklega verið horft til að nútímavæða mannauðsstörf með því að notast í auknum mæli við rafrænar lausnir í stað pappírs.
Við erum að horfa til aukinnar tæknivæðingar fyrirtækisins með það að markmiði að bæta efnahagslega og umhverfislega velsæld heilt yfir.“