Aðgerðir í loftslagsmálum

„Bláa Lónið stefnir ávallt að því að vera fyrirmynd í umhverfisvænni upplifun með vellíðan og sjálfbærni að leiðarljósi.”

heimsmarkmid13-01

Loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar eru stærsta ógn og áskorun mannkynsins í umhverfismálum. Sú ábyrgð sem fylgir þeirri áskorun liggur á herðum okkar allra. Einungis með samhentu átaki allra þjóða, fyrirtækja og einstaklinga er hægt að vernda vistkerfi okkar fyrir komandi kynslóðir. Bláa Lónið axlar ábyrgð sína í þessum efnum og stefnir ávallt að því að vera fyrirmynd í umhverfisvænni upplifun með vellíðan og sjálfbærni að leiðarljósi.

Kolefnishlutlaus upplifun

Bláa Lónið býður viðskiptavinum sínum kolefnisjafnaða upplifun í formi þjónustu og vara. Fyrirtækið hefur verið í samstarfi með Kolvið varðandi kolefnisjöfnun á allri losun Bláa Lónsins síðan 2019. Í gegnum það samstarf hefur fyrirtækið stuðlað að gróðursetningu 32.160 trjáa á þrem árum. Kolefnisjöfnunin fyrir árið 2021 náði til raforku, varmaorku, eldsneytisnotkunar bíla Bláa Lónsins, losunar vegna úrgangs, flugferða starfsfólks, rútuferða starfsfólks og rútuferða gesta með Destination Blue Lagoon.

Árið 2021 var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá Bláa Lóninu 643 tonn CO2eq og munu Kolviður og Skógræktarfélag Íslands því gróðursetja 6.430 tré til að kolefnisjafna þá losun.

Vegferð okkar að kolefnishlutleysi

Fjöldi umbótaverkefna síðastliðinna ára hefur skilað árangri í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en með tilkomu nýrra rekstrareininga 2018 og 2019 jókst losunin. Stærsti áhrifavaldurinn í losun fyrirtækisins er eldsneytisnotkun vegna rútuferða gesta dótturfélags Bláa Lónsins, Destination Blue Lagoon, og ökutækja starfsfólks. Árið 2021 jafngilti það 77% af heildarlosun fyrirtækisins.

Mikill samdráttur varð í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2020 og 2021 sem afleiðing af COVID-19. Flugferðum starfsfólks, rútuferðum og bílferðum fækkaði og orkunotkun dróst saman.

Þessi samdráttur er ekki varanlegur en mikilvægur lærdómur hefur verið dreginn af þeim lausnum sem urðu til í faraldrinum til að viðhalda eins miklu og hægt er af þessum samdrætti til framtíðar.

new-image-icelandic

Start typing and press Enter to search