2022 – Helstu áherslur

„Á árinu mun Bláa Lónið fagna 30 ára afmæli sínu en það var stofnað þann 1. júní 1992.“

Á árinu mun Bláa Lónið fagna 30 ára afmæli sínu en það var stofnað þann 1. júní 1992.

Áætlanir félagsins á árinu 2022 gera ráð fyrir töluverðri vöru- og þjónustuþróun, markaðssókn og áframhaldandi uppbyggingu innviða með það að markmiði að bæta enn upplifun gesta.

Áherslur ársins munu sérstaklega snúa að umhverfis- og sjálfbærnimálum. Þegar er hafin endurskoðun og samstilling á stefnum félagsins og verður nýtt leiðarljós kynnt fljótlega sem mun ná yfir alla starfsemi og allt þróunarstarf.

Stefnt er að því að flytja skrifstofur stoðsviða félagsins í Urriðaholtið í Garðabænum.  Það er gert til að nýta betur húsakostinn í Svartsengi undir þjónustu við gesti en einnig til að minnka kolefnisspor starfseminnar, en 75% þeirra starfsmanna sem starfa í stoðsviðunum búa á höfuðborgarsvæðinu. Stafræn vegferð félagsins mun halda áfram af fullum krafti sem mun skila sér í aukinni skilvirkni á mörgum sviðum.

Áætlanir gera ráð fyrir að kynna fleiri nýjar húðvörur í BL+ línunni á árinu og mun umbúðum Spa og Derma húðvörulínanna verða skipt út fyrir vistvænar umbúðir.

Áfram verður lögð mikil áhersla á stuðning við starfsfólk félagsins sem er ein mesta auðlind þess.  Þjálfun og menntun verður þar í forgrunni.

Þá mun Bláa Lónið áfram leggja sitt af mörkum við uppbyggingu baðstaða í Þjórsárdal og í Kerlingarfjöllum svo dæmi séu tekin.

Start typing and press Enter to search