Verslanir
„Verslanir Bláa Lónsins má finna í Svartsengi, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, á Laugavegi 15 og nú einnig í Kringlunni.”
Verslunarrekstur Bláa Lónsins lá meira eða minna niðri í byrjun 2021 en félagið ákvað í upphafi að loka verslun sinni á Laugavegi tímabundið.
Eftir góða reynslu af rekstri svokallaðrar pop-up verslunar í Smáralind á aðventunni 2020 ákvað Bláa Lónið að leita hófanna um nýtt verslunarhúsnæði á svæði sem þjónaði betur innlenda markaðnum. Þann 16. apríl 2021 opnaði Bláa Lónið glæsilega verslun í Kringlunni. Öll hönnun og umgjörð er einstaklega vel heppnuð og vandað var til allra verka. Reksturinn fór vel af stað en með opnun verslunarinnar í Kringlunni er þjónustustigið stóraukið gagnvart íslenska markaðnum, bæði hvað varðar sölu á húðvörum sem og upplifunum.
Verslun Bláa Lónsins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar opnaði á ný 20. maí 2021 og flaggskipsverslunin í Bláa Lóninu í júní samhliða opnun Bláa Lónsins. Verslun Bláa Lónsins við Laugaveg opnaði svo loks um miðjan nóvember eftir 11 mánaða lokun.
Verslunarrekstur Bláa Lónsins gekk vel frá miðju ári. Aukinn sýnileiki húðvara Bláa Lónsins á upplifunarsvæðum hafði jákvæð áhrif á söluna sem og nýjar vörur í BL+ vörulínunni.
Bláa Lónið rekur vefverslun á Íslandi og var á árinu lögð áhersla á að bjóða stórauknum fjölda félaga í vinaklúbbi Bláa Lónsins ýmis tilboð og kynna þeim vel vörunýjungar í húðvörum og upplifunum.