Ávarp stjórnarformanns
„Það eru bæði gömul sannindi og ný að öflugur rekstur fyrirtækjanna í landinu er undirstaða velmegunar þjóðarinnar í heild.”
Úlfar Steindórsson
Stjórnarformaður
Ágætu hluthafar.
Síðustu tvö ár hefur rekstur Bláa Lónsins verið með allt öðrum hætti en verið hefur um árabil. Í stað samfelldrar velgengni og hagnaðarrekstrar allt frá árinu 2011 varð félagið fyrir gífurlegum truflunum, nú annað árið í röð, vegna veirufaraldursins sem heimsbyggðin öll hefur ekki farið varhluta af.
Vegna hans þurfti að loka rekstri fyrirtækisins við Svartsengi í október árið 2020. Þar var ekki opnað aftur fyrr en í júní síðastliðinn, enda ekki um annað að ræða en að halda starfsstöðvunum lokuðum vegna sóttvarnaaðgerða og ráðstafana sem yfirvöld fyrirskipuðu. Óvissan hélt þó áfram allt til ársloka, þar sem sóttvarnareglum var ítrekað breytt á tímabilinu með tilheyrandi röskun á starfsemi félagsins.
Jákvæður viðsnúningur var þó á rekstri Bláa Lónsins á árinu, frá árinu á undan, en tekjur jukust um 46% sem hafði verulega jákvæð áhrif á afkomu félagsins. Tap félagsins nam 4,8 milljónum evra eftir skatta. EBITDA félagsins nam hún 2,1 milljónum evra í stað neikvæðrar EBITDA að upphæð 12,6 milljónum evra árið á undan. Til samanburðar nam tap félagsins árið 2020 20,7 milljónum evra.
„Skattspor Bláa Lónsins á árinu 2021 nam rúmlega 1,8 milljörðum íslenskra króna, sem er rúmlega níföld sú upphæð sem félagið nýtti sér í gegnum úrræði ríkisstjórnarinnar.“
Það var ekki síst vegna stuðnings stjórnvalda við ferðaþjónustuna, hvað varðar að viðhalda ráðningarsambandi við starfsmenn sína, sem Bláa Lóninu auðnaðist að halda 396 starfsmönnum á launaskrá að meðaltali á síðasta ári, þrátt fyrir lokanir fyrri hluta ársins. Bláa Lónið er mikilvægur atvinnurekandi, sér í lagi á Reykjanesinu. Við flóknar aðstæður og óvissu var öll áhersla lögð á að verja hagsmuni félagsins á sama tíma og unnið var að því að styrkja stoðir þess til að geta sótt fram af fullum þunga þegar að birta tæki á ný. Í árslok störfuðu 569 starfmenn hjá félaginu í 506 stöðugildum.
Þessar áherslur skiluðu góðum árangri. Skattspor Bláa Lónsins á árinu 2021 nam rúmlega 1,8 milljörðum íslenskra króna, sem er rúmlega níföld sú upphæð sem félagið nýtti sér í gegnum úrræði ríkisstjórnarinnar. Það eru því bæði gömul sannindi og ný að öflugur rekstur fyrirtækjanna í landinu er undirstaða velmegunar þjóðarinnar í heild.
Þrátt fyrir krefjandi aðstæður á árinu 2021 er fjárhagsstaða Bláa Lónsins sterk og eiginfjárhlutfall samkvæmt efnahagsreikningi í árslok 2021 nam rúmlega 37%.
„Við flóknar aðstæður og óvissu var öll áhersla lögð á að verja hagsmuni félagsins á sama tíma og unnið var að því að styrkja stoðir þess til að geta sótt fram af fullum þunga þegar að birta tæki á ný.“
Töluverðar jarðhræringar hófust í janúar 2021 í kringum fjallið Þorbjörn í nágrenni Bláa Lónsins. Þeim lauk með eldgosi, hraungosi, við Fagradalsfjall, sem hófst 19. mars og lauk í desember sl. Hvorki mönnum né mannvirkjum stafaði hætta af því. Við erum sífellt minnt á tilvist náttúruafla á Íslandi. Ekki er hægt að útiloka frekari jarðhræringar eða eldgos en að mati vísindamanna er ekki talið að hætta stafi að byggð á Reykjanesi eða að starfsemi Bláa Lónsins vegna þeirra. Við erum ávallt meðvituð um þá ógn sem getur steðjað að okkur vegna jarðhræringa og eldgosa sem aldrei er unnt að útiloka á eldfjallaeyjunni Íslandi.
Fyrir hönd stjórnar félagsins þakka ég starfsmönnum óeigingjarnt og framsækið starf við krefjandi aðstæður. Jafnframt þakka ég samstjórnarmönnum mínum í stjórn Bláa Lónsins ánægjulegt samstarf og góða samstöðu.
Við trúum því að framtíðin sé björt og að viðspyrnan hefjist fyrir alvöru fyrr en síðar. Síðustu mánuðir lofa góðu þar um.